top of page
Search
  • Writer's pictureSolveig

Styrkfjárhæðir vegna almennra tannréttinga nær þrefaldast


Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur, með breytingu á reglugerð um þátttöku Sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar, nær þrefaldað styrki til almennra tannréttinga. Hækkunin tekur gildi 1. september næstkomandi. Styrkir til tannréttinga eru tvískiptir. Styrkur til meðferðar í bæði efri og neðri góm hækkar úr 150.000 kr. Í 430.000 kr og styrkur vegna tannréttinga sem krefjast einungis meðferðar í efri eða neðri gómi hækkar úr 100.000 kr. í 290.000 kr.

Með tímamótasamningi Sjúkratrygginga Íslands og tannréttingasérfræðinga sem undirritaður var í lok júlí sköpuðust forsendur til að auka greiðsluþátttöku ríkisins í tannréttingum. Samningurinn tekur gildi á morgun 1. september, ásamt reglugerð Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra sem kveður á um breytta greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna tannréttinga í samræmi við samninginn.

Markmið stjórnvalda að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra

Samningurinn er til þriggja ára og tekur til tannréttingaþjónustu á stofum tannréttingasérfræðinga fyrir sjúkratryggða einstaklinga. Með samningnum er fylgt eftir markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr kostnaði sjúkratryggðra vegna heilbrigðisþjónustu. Meðal annars er kveðið á um samstarfsnefnd sem stuðlar að auknu samstarfi og samtali milli hagaðila og tekur á álitamálum sem upp koma varðandi framkvæmd samningsins. Jafnframt er kveðið á um virka þátttöku í þróun stafrænna lausna, nýrrar tækni og nýsköpunar sem leiðir til aukinnar hagkvæmni og gæða í þjónustu.

Heildarendurskoðun reglugerðar um greiðsluþátttöku vegna tannlækninga

Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands og haghafa vinnur nú að heildarendurskoðun reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar. Endurskoðunin er liður í því að útfæra nánar samninginn um tannréttingarþjónustu og jafnframt samning Sjúkratrygginga Íslands um tannlæknaþjónustu sem gerður var fyrr á þessu ári. Sá samningur fjallar um forvarnir og tannlækningar barna til 18 ára aldurs, tannlækningar aldraðra og öryrkja og tannlækningar vegna alvarlegra meðfæddra galla, slysa eða sjúkdóma, annarra en tannréttinga.


85 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


Post: Blog2_Post
bottom of page