top of page
Dental Tools in Pocket

SPURT OG SVARAÐ

Við höfum tekið saman algengustu spurningarnar sem við fáum og sett fram svör við þeim hér. Við vonum að þetta hjálpi þér að finna svör við þínum spurningum. Ekki hika við að hafa samband við okkur!

Spurt og svarað: FAQ

HVENÆR Á AÐ HEFJA TANNRÉTTINGAMEÐFERÐ?

Í sumum tilvikum þarf að hefja tannréttingar snemma, eða um sjö til átta ára aldur. Það á til dæmis við ef um krossbit er að ræða. Markmiðið er þá að losa um hugsanlega þvingun í biti eða að auka pláss í tannboganum til að auðvelda fullorðinstönnum að komast í munn. Í þessum tilvikum eru oftast notaðir gómar til að víkka efri kjálka.
Tannréttingar með föstum tækjum hefjast yfirleitt ekki fyrr en allar fullorðinstennur eru komnar eða eru skammt undan. Það er oftast á aldrinum 11 – 14 ára, en getur reyndar verið mjög breytilegt milli einstaklinga.
Ef kjálkaaðgerð er áætluð sem hluti af meðferðaráætluninni þarf að bíða með að hefja meðferð þar til vexti lýkur.

ERU TANNRÉTTINGAR LÍKA FYRIR FULLORÐNA?

Já, það er hægt að rétta tennur hvenær sem er ævinnar. Fullorðnir kjósa oft Invisalign skinnumeðferð, sem hentar vel þegar um væga tannskekkju er að ræða. Ef um er að ræða mikla bitskekkju gæti hins vegar þurft hefðbundna tannréttingu með kjálkaaðgerð.

ER TANNRÉTTINGAMEÐFERÐ SÁRSAUKAFULL?

Fyrstu dagana eftir að spangir hafa verið settar upp geta tennur verið aumar. Oftast ganga þessi eymsli yfir á þremur til fimm dögum. Eftir heimsóknir til okkar, þegar skipt hefur verið um boga eða annar kraftur settur á spangirnar, geta tennurnar aftur orðið aumar fyrsta sólarhringinn. Tunga, kinnar og varir þurfa líka að venjast nýju áreiti, það getur tekið nokkra daga. Hægt er að setja tannréttingavax á þá hluta spanganna sem valda óþægindum fyrstu dagana.
Uppsetning tækjanna er hins vegar ekki sársaukafull og krefst ekki deyfingar.

HVAÐ Á AÐ GERA EF EITTHVAÐ KEMUR UPP Á MILLI HEIMSÓKNA?

Stundum geta festingarnar losnað af tönnunum, til dæmis ef bitið er í eitthvað mjög hart eða klístrað. Einnig geta bogar færst til og farið að stinga. Alltaf má hafa samband ef slíkt veldur sársauka og munum við þá laga það. Ef óþægindi eru minni háttar má viðgerð oft bíða til næsta tíma. 
Ef laus tæki aflagast svo að ekki er hægt að nota þau þarf að hafa samband við okkur.

ÞARF AÐ FARA Í EFTIRLIT TIL HEIMILISTANNLÆKNIS Á MEÐAN Á TANNRÉTTINGMEÐFERÐ STENDUR?

Já, afar mikilvægt er að hefðbundnu eftirliti sé sinnt á meðferðartímanum. Ef illa gengur að halda tönnunum hreinum gæti jafnvel þurft þéttara eftirlit hjá heimilistannlækninum. Nákvæmt eftirlit, flúorlökkun og millitannaröntgenmyndir eru nauðsynlegur þáttur í forvörnum gegn tannskemmdum.

HVAÐ MÁ EKKI BORÐA Á MEÐFERÐARTÍMANUM?

Þegar um er að ræða meðferð með föstum spöngum er mikilvægt að forðast það sem getur losað festingar eða skekkt boga og króka. Hart og klístrað sælgæti ber að forðast, svo sem karamellur, brjóstsykur og annað þess háttar. Hart grænmeti og ávexti þarf að skera í þynnri bita, svo sem gulrætur, epli og perur. Poppkorn og sykrað tyggjó ætti alveg að forðast. Sykurlaust tyggjó er einnig varasamt á fyrstu mánuðum meðferðar, þegar bogar eru mjúkir. Hnetur, hörð brauðskorpa og brauðstangir hafa einnig það orð á sér að vera tíðir sökudólgur í spangaróhöppum.

ER HÆGT AÐ NOTA TANNÞRÁÐ Á MEÐFERÐARTÍMANUM?

Já, tannhirða er afar mikilvæg á meðferðartímanum og eru ýmsar leiðir mögulegar þegar kemur að hreinsun milli tanna. Þegar spangir hafa verið settar upp sýnum við ykkur hvernig best er að bera sig að.

HVAÐ TEKUR TANNRÉTTINGAMEÐFERÐ LANGAN TÍMA?

Það fer eftir eðli og umfangi skekkjunnar, en einnig eftir því hvernig gengur að fylgja leiðbeiningum um notkun lausra tækja og teygja og hversu vel er hugsað um tækin. Almennt má segja að vaxtaraðlögunarmeðferð með lausum tækjum taki venjulega um 10 – 14 mánuði. Meðferð með föstum spöngum tekur oft tvö til þrjú ár, en getur tekið skemmri tíma ef bitskekkja er væg. Í sumum tilvikum, til dæmis þegar verið er að draga niður innlokaðar augntennur, getur meðferðin tekið lengri tíma. Góð samvinna og góð munnhirða er nauðsynleg til að meðferðin gangi eins og hratt og vel og hægt er. Einnig er mikilvægt að sinna mætingu vel og gæta þess að ekki líði of langur tíma á milli heimsókna.

HVAÐ ERU TANNRÉTTINGASÉRFRÆÐINGAR?

Tannréttingasérfræðingar eru sérmenntaðir tannlæknar sem stunda tannréttingar að námi loknu. Tannréttingasérfræðingar vinna náið með öðrum tannlæknum, bæði hinum almenna tannlækni sem er jafnframt heimilstannlæknir viðkomandi og öðrum sérfræðingum innan tannlæknastéttarinnar.

Tannréttingar er elsta sérgreinin innan tannlækninga. Vegna þess hve mikla yfirsýn á tannlækningum þarf til að geta sinnt tannréttingum er krafist að tannréttingasérfræðingur hafi lært almenna tannlæknisfræði í 6 ár áður en hann fer í sérnám í tannréttingum. Sérnám í tannréttingum er þriggja til fjögurra ára framhaldsnám við erlendan háskóla. Að námi loknu þarf að sækja um sérfræðiviðurkenningu til Landlæknisembættisins.

Tannlæknir sem hefur lokið sérnámi í tannréttingum má fyrst kalla sig sérfræðing í tannréttingum eftir að hafa fengið veitt leyfi til þess frá Landlæknisembættinu.

Við vonum að þú hafir fundið svör við spurningum þínum. Hafðu endilega samband ef þig vantar meiri upplýsingar eða langar ræða málin við okkur.

bottom of page