Snorrabraut 29

FRÓÐLEIKUR
Hér má finna ýmsan fróðleik um tannréttingar.
Ef frekari upplýsinga er þörf má alltaf hringja í okkur eða senda línu.
HVERS VEGNA TANNRÉTTINGAR?
TENNUR
Tennur komast ekki í munn til dæmis vegna þrengsla eða rangrar staðsetningar tannkíms í beini. Slíkt getur valdið skaða á rótum aðlægra tanna eða beini.
Staðsetning tanna innan tannbogans er röng og getur valdið truflun í biti eða skaða á tannholdi.
Tennur eru skakkar og valda útlitslegum vandamálium.
BIT
Bit er skakkt, með eða án þvingunar, og getur þannig valdið álagi á kjálkaliði, vöðva eða tannhold.
Mikilvægt er að leiðrétta aðstæður sem geta valdið frekari skaða í framtíðinni.
KJÁLKAMISRÆMI
Ef mikið misræmi er á stöðu og stærð efri og neðri kjálka getur verið nauðsynlegt að leiðrétta það með kjálkaaðgerð. Í þeim tilvikum er meðferðaráætlun unnin í nánu samstarfi við kjálkaskurðlækna.
ÁÐUR EN TANNRÉTTINGAR HEFJAST
EFTIRLIT HJÁ HEIMILISTANNLÆKNI
Nauðsynlegt er að fara í eftirlit til heimilistannlæknis áður en virk tannréttingameðferð hefst til að ganga úr skugga um að hvergi séu tannskemmdir eða tannholdsbólgur. Einnig er nauðsynlegt að fara í reglubundin eftirlit til heimilistannlæknis á meðan á tannréttingameðferð stendur.
SAMVINNA
Tannréttingameðferð er samvinna. Afar mikilvægt er að tannréttingatæki og teygur séu notuð eins og mælt er fyrir um til að tryggja að meðferð gangi hratt og vel fyrir sig. Mikilvægt er fyrir börn og ungmenni að fá góðan stuðning foreldra eða forráðamanna á heimilinu og láta okkur vita ef eitthvað kemur upp á.
MIKILVÆGAR UPPLÝSINGAR
TANNHIRÐA
Mjög mikilvægt er að halda tönnum og spöngum vel hreinum allan meðferðartímann. Það þarf að bursta mjög vel kvölds og morgna og auk þess hreinsa vel allan mat úr spöngunum eftir hverja máltíð. Ef boginn og bogtyllurnar eru óhrein getur það dregið úr virkni spanganna og þar með hraða tannfærslunnar. Gott er að skola með flúorlausn eftir síðustu burstun á kvöldin.
Ef tannhirðu er ábótavant er heilbrigði tanna og tannholds ógnað. Í þeim tilvikum getur sú staða komið upp að hætta þurfi meðferð áður en meðferðarmarkmiðum er náð.
MATARÆÐI
Varast ber harðan mat. Ekki bíta í hráar gulrætur, epli, perur og annað slíkt. Gæta sín á brauðskorpu, brauðstöngum, harðfiski, klökum í drykkjum og öðru slíku. Skera mat í minni bita og varast harðar hnetur og möndlur.
Forðast ber alveg poppkorn, sykrað tyggjó, brjóstsykur, harðar kúlur/karmellur og annað hart og/eða seigt sælgæti. Sykurlaust tyggjó er einnig varasamt, sérstaklega á fyrstu stigum meðferðar. Aftur á móti má fá sér, mjúkt súkkulaði, kartöfluflögur og annað góðgæti sem ekki setur álag á spangirnar.
MÆTING
Mikilvægt er að mæta í bókaða tíma. Ef breyta þarf tíma er nauðsynlegt að gera það með eins góðum fyrirvara og hægt er svo ekki líði of langur tími á milli heimsókna.
SAMVINNA
Tannréttingameðferð er samvinna. Afar mikilvægt er að tannréttingatæki og teygur séu notuð eins og mælt er fyrir um til að tryggja að meðferð gangi hratt og vel fyrir sig.
EYMSLI
Á ákveðnum tímabilum í meðferðinni má reikna með að tennur geti orðið aumar. Oftast líður það hjá á nokkrum dögum. Einnig geta tannréttingatæki valdið óþægindum fyrir varir, kinnar og tannhold en slíkt er oftast einfalt að lagfæra.
TVÖ TÍMABIL
Hægt er að skipta tannréttingameðferð í tvö tímabil. Virka meðferð og stuðningsmeðferð. Virk meðferð er það tímabil þegar verið er að rétta tennurnar og lagfæra bitið. Á þessum tíma þarf að mæta á stofuna á fjögurra til sex vikna fresti til að láta skipta um boga eða stilla tæki.
Meðferðartíminn er oftast tvö til þrjúár. Þegar virkri tannréttingameðferð lýkur eru tennur komnar á sinn stað en eiga eftir að fá tíma til að ná stöðugleika aftur eftir færsluna. Á þessu tímabili þarf að mæta í eftirlit tvisvar til þrisvar á ári.
Eftirliti lýkur tveimur árum eftir að virkri meðferð lauk. Afar mikilvægt er að fylgja nákvæmlega fyrirmælum um notkun stoðtækja og láta strax vita ef eitthvað kemur upp á.
ÁHÆTTUÞÆTTIR
Ákveðin áhætta getur fylgt því að fara í tannréttingar.
ÓNÓG BURSTUN
Ef munnhirða er ófullnægjandi er hætta á að tannskemmdir myndist og að tannholdbólgur komi upp. Því er afar mikilvægt að sinna tannhirðu gaumgæfilega, nota flúorskol og tannþráð og fara reglulega í eftirlit til heimilistannlæknis.
RÓTAREYÐING
Í einstaka tilvikum sjást rótareyðingar við tannréttingameðferð. Alvarlegar rótareyðingar eru sjaldgæfar og koma helst upp á tönnum sem hafa orðið fyrir skaða áður en tannréttingameðferð hófst.
TAUGASKAÐAR Á TÖNNUM
Dæmi eru um að taugaskaði verði á tönnum. Slíkt er afar sjaldgæft og gerist þá helst á tönnum sem áður hafa fengið á sig högg eða annað álag.
TANNHIRÐA
Mjög mikilvægt er að halda tönnum og spöngum vel hreinum allan meðferðartímann. Það þarf að bursta mjög vel kvölds og morgna og auk þess hreinsa vel allan mat úr spöngunum eftir hverja máltíð. Ef boginn og bogtyllurnar eru óhrein getur það dregið úr virkni spanganna og þar með hraða tannfærslunnar. Á heimasíðu Landlæknis má finna mjög góð myndbönd og leiðbeiningar um tannhirðu og tannvernd á mörgum tungumálum – sjá hér.
Þegar spangir eru á tönnum getur verið flókið og tímafrekt að hreinsa tennur vel. Gæta þarf sérstaklega að því að bursta vel það svæði tanna sem liggur milli bogtylla og tannholds auk þess sem hreinsa þarf vel í kringum festingar og undir króka og boga. Þegar eru settar upp fastar spangir er tannburstun kennd vel.
Nauðsynlegt er að nota tannþráð og/eða önnur tæki til að komast á milli tanna og undir boga og fá allir kennslu í því þegar tæki eru sett upp. Mælt er með flúorskolun á meðan á tannréttingu stendur.
LAUS TÆKI
VÍKKUNARGÓMUR
Víkkunargómur er notaður þegar efri tannbogi er of grannur. Of grannur tannbogi getur valdið krossbiti, með eða án þvingunar, og þrengslum. Víkkunargómur er oftast notaður þegar barn er að vaxa því þá næst betri niðurstaða. Hægt er að setja litlar fjaðrir inn í góminn til að ýta einstökum tönnum aðeins til.
BITHÆKKUNARGÓMUR
Bithækkunargómur er notaður til að hækka bit. Djúpt bit kallast það þegar neðri framtennur bíta hátt upp á bakvið efri framtennur, jafnvel upp í tannhold. Gómurinn er með bitpalli aftan við efri framtennur.
STOÐGÓMUR
Stoðgómur er notaður til að halda við tannréttinguna fyrstu árin eftir að virkri meðferð lýkur. Hann getur í sumum tilfellum einnig verið með bitpalli.
GÓMGLÆRUR
Gómglærur er hægt að nota við minniháttar lagfæringu á stökum tönnum eða sem stuðningur eftir virka meðferð.
AFTURTOGSBEISLI
Þessi beisli eru notuð til að færa jaxla efri góms aftar í tannboga og lagfæra bitskekkju. Þau eru stundum notuð með bithækkunargómum eða föstum spöngum.
FRAMTOGSBEISLI
Þessi beisli eru notuð til að færa jaxla efri góms fram í tannboga. Þau eru eingöngu notuð hjá börnum sem eru að vaxa ef efri kjálki er afturstæður.
FÖST TÆKI
Föst tæki eru öll þau tæki sem fest eru beint á tennurnar.
SPANGIR
Fastar spangir (teinar, kubbar) eru festingar sem límdar eru á sjálfar tennurnar. Á þær eru festir bogar sem stilltir eru til að færa tennurnar á réttan stað. Festingarnar eru oftast úr stáli en einnig er hægt að fá hvítar festingar á þær tennur sem sjást mest í brosi.
AUKAHLUTIR Á SPANGIR
Ýmsa aukahluti getur þurft að nota á spangirnar til að ná góðri niðurstöðu. Til dæmis þurfa langflestir á einhverjum tíma í meðferðinni að nota bitleiðréttingarteygjur. Teygjukeðjur eru notaðar til að færa tennur saman og gormar til að ýta tönnum í sundur.
BITSPYRNUR
Bitspyrnur eru tæki sem fest eru á spangir eða tennur til að leiðrétta bitskekkju.
ÖNNUR TÆKI
Einnig eru til gómbogar, víkkunartæki og önnur tæki til að ýta tönnum til eða halda við tennur.
INVISALIGN MEÐFERÐ
Í sumum tilvikum er hægt að rétta tennur án þess að nota spangir. Þess í stað eru þá notaðar glærar plastskinnur frá Invisalign. Nánari upplýsingar um Invisalign meðferð má fá með því að fylgja hlekknum hér.
HVERJIR ERU HELSTU KOSTIRNIR?
Skinnumeðferðin hefur þá kosti að vera ekki mjög áberandi og auðveldara er að halda tönnunum hreinum en í hefðbundinni spangameðferð.
HVENÆR HENTAR ÞESSI MEÐFERÐ?
Skinnumeðferðin hentar oft vel í fullorðnum einstaklingum og stálpuðum unglingum, þar sem allar fullorðinstennur eru komnar í munn og bitskekkja er ekki mjög mikil. Nánari upplýsingar um Invisalign meðferð má fá með því að fylgja hlekknum hér.